Saga verkefnissins

Hér er stiklað á stóru um tilurð verkefnissins

Seyruverkefnið

Það hefur verið verkefni í gegnum árin að finna farveg fyrir seyru sem safnast upp í rotþróm.   Hrunamannahreppur hafði áhuga á því að finna lausn á því verkefni sem fæli í sér að nýta seyruna heima fyrir í stað þess að keyra hana um langan veg til urðunar.  Það var því úr að í lok árs 2011 var lögð fyrir sveitarstjórn Hrunamannahrepps hugmynd að því að kanna  möguleika á nýtingu fastefnis rotþróa til landgræðslu eða skógræktar og koma á fót tilraunaverkefni í því skyni.  Haft var samband við Landgræðslu ríkisins og í mars 2012 gerðu Landgræðslan og Hrunamannahreppur með sér þriggja ára samning um tilraunaverkefni um nýtingu seyru til uppgræðslu á afgirtu landi á Hrunamannaafrétti í svo kallaðri Gullfossgirðingu. Í stað þess að flytja seyru um langan veg til urðunar var hún grófhreinsuð og flutt í landgræðslugirðingu fremst á afréttinum þar sem hún var felld niður í gróðurrýra mela til að sjá hvernig hún nýttist til landgræðslu.

Starfsmenn Hrunamannahrepps mældu inn og mynduðu allar rotþrær í sveitarfélaginu og komu skráningu á stafrænt form í samstarfi við Loftmyndir.  Það kerfi er enn notað í dag og heldur það utanum allar upplýsingar um hverja rotþró.
Í byrjun verkefnisins var 60-70% af efni tekið úr þróm og safnað í gám á móttökusvæði eftir að því hafði verið safnað saman var það síðan tekið uppí  niðurfellingartank.  Keyrt var með  efnið upp í landagræðslugirðingu þar sem það var fellt niður í jarðveginn. Hreinsitækni og Stífluþjónusta Suðurlands sáu um að hreinsa rotþrær á svæðinu og Fögrusteinar um að keyra uppeftir og fella niður í landgræðslugirðingunni.

Verkefnið stóð í þrjú ár og var unnið með samþykki Heilbrigðiseftirlits Suðurlands. Landgræðslan fylgdist með framvindu og árangri uppgræðslunnar og gerði mælingar á gróðri fyrst haustið 2015.

Þegar Sorpa ákvað skyndilega að hætta móttöku á seyru árið 2014 lentu mörg sveitarfélög í vandræðum með afsetningu á seyru. Eftir samtal Uppsveita og Flóa var farið í að kanna með samvinnu um vinnslu og nýtingu á seyur eftirtalinna 5 sveitarfélaga: Bláskógabyggðar, Flóahrepps, Grímsnes-og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps og  Skeiða-og Gnúpverjahrepps. Tæknisvið UTU hélt utan um og stjórnaði fjárfestingum vegna seyrusvæðisins í upphafi samstarfsins.  Hrunamannahreppur sá um framkvæmd og umsjón verkefnisins og er umsjónarsveitarfélag enn þann dag í dag.

Í byrjun árs 2015 var samþykktur samstarfssamningur um verkefnið hjá sveitarfélögunum. Breytt var um aðferð við afsetningu seyrunnar þar sem kostnaðarsamt og erfitt var að fella seyruna niður auk þess sem þessi aðferð fól í sér að mikið af vatni var keyrt uppeftir.  Farið var í það að safna seyrunni, afvatna hana, kalka og yfirborðsdreifa með þar til gerðum vagni.

Leitað var í reynslubanka nágranna landa og árið 2015 var keyptur kalkari að fyrirmynd Færeyinga og Dana og var hann settur upp á móttökusvæðinu í Hrunamannahreppi enda var þar leyfi fyrir þess háttar starfsemi.

Kalkarinn var tekin í notkun vorið 2016 og var þá var  farið úr því að fella niður seyruna í stað þess að yfirborðsdreifa henni. Steypt var plan undir kalkarann sumarið 2017 til að gera aðstöðuna betri til vinnslu seyrunnar.

Í lok árs 2017 óskaði Ásahreppur eftir að koma inn í verkefnið og í febrúar 2018 var gengið frá samstarfssamningi 6 sveitarfélaga um rekstur á verkefninu. Það er Ásahrepps, Bláskógabyggðar, Flóahrepps, Grímsnes-og Grafningshrepps, Hrunamannahrepps og Skeiða-og Gnúpverjahrepps.

Verkefnið þróaðist áfram og árið 2018 var samþykkt að kaupa hreinsibíl til hreinsunar á þróm og kom hann til landsins í lok júní 2018. Byrjað var að nýta bílinn í lok júlí það sama ár. Bílinn var keyptur með búnaði til að hreinsa aukahluti úr seyrunni, sigti, og reynist það vel en þó nokkuð er af aukahlutum í seyrunni þá sérstaklega blautklútum. Búnaðurinn var hannaður af Hannibal veitustjóra í Hrunamannahreppi, Berki starfsmanni tæknisviðs UTU og fyrirtækinu Simon Moos í Danmörku, Fyrirtækið sá um smíði á búnaðinum og að koma honum fyrir á bílnum. Einnig sáu Simon Moos um þjálfun á starfsmönnum bílsins.  Tveir starfsmenn voru ráðnir á bílinn. Bílstjóri og aðstoðarmaður.

Í lok árs 2018 var samþykkt að byggja yfir starfsemina og var það gert á Flatholti 2, við móttökusvæðið í Hrunamannahreppi.

Verkið var boðið út 2019  og eftir opnun útboðs var samið við Landstólpa um byggingu á húsinu og jarðvinnu. Áhaldahúsið sá um að leggja vatnslagnir í húsið og Fjallaraf sá um lagningu rafmagns.

Húsið var tekið í notkun í byrjun árs 2020 og breytti það miklu með reksturinn á svæðinu að koma honum inn í hús.
Húsið er um 880 fm. (lengd 35 m og breidd 25 m) með 7 m vegghæð.

Í byrjun árs 2020 var ráðinn þjónustufulltrúi  í  100 % starf til verkefnisins og hóf hann störf þann 1. mars 2020.  Keyptur var Toyota Hilux fyrir þjónustufulltrúann. Starfssvið hans er að vera tenging milli fasteignaeigenda, skrifstofa sveitarfélaganna og verkefnisins og annast hann öll samskipti við fasteignaeigendur.

Verkefnið hefur verið mikið frumkvöðlastarf frá því það hófst og eiga Hannibal Kjartansson veitustjóri Hrunamannahrepps, Jón G. Valgeirsson  fyrrum sveitarstjóri Hrunamannahrepps og Börkur R. Brynjarsson fyrrum starfsmaður tæknisviðs UTU mestan þátt í því að koma verkefninu á þann stað sem það er í dag. Verkefnið hefur stækkað ár frá ári.  Rotþrær á svæðinu eru um 7000  í lok árs 2022 og fjölgar ört. Hreinsitækni kemur einnig með efni til vinnslu á Seyrustöðum sem er safnað fyrir utan okkar svæði. Fleiri aðilar hafa óskað eftir að koma með efni til vinnslu á Seyrustöðum.

Í lok árs 2022 eru Seyrustaðir eina vinnslustöð sinnar tegundar á Íslandi.