Samstarf

Samstarfsverkefni

„Slam!“ – samstarfsverkefni Flúðaskóla við Seyruverkefnið á Flúðum

Flúðaskóli leitaði til Seyruverkefnisins vegna hugmyndar um verkefni sem skólinn gæti unnið í samstarfi við hreinsunarstöðina.

Verkefnið hefur fengið nafnið „Slam!“ með vísan í dönsku en Flúðaskóli er að vinna að undirbúningi að verkefninu í samstarfi við danskan skóla í Holbæk. Slam á dönsku þýðir seyra og jafnframt þýðir það skellur. Þannig vísar nafnið bæði í seyru og jafnframt þann skell sem heimurinn er að upplifa í sambandi við vatnsskort víða um heim.

Sótt hefur verið um styrk til Nordplus Junior vegna þessa samstarfs og vonumst við til að fá styrkinn til að hægt sé að vinna verkefnið í dönsku samstarfi. Ef ekki fæst styrkur, hefur samt sem áður verið lagður grundvöllur að spennandi verkefni sem Flúðaskóli mun nýta sér og leita eftir samstarfi við Seyruverkefnið.

Í Flúðaskóla og Holbæk Lilleskole, tóku saman höndum náttúrufræðikennarinn, samfélagsfræðikennarinn og dönskukennarinn og undirbjuggu hugmyndina að nálguninni um verkefnið.

Verkefnið gengur út á samfélagslega sjálfbærni þar sem skoðaðar verða hreinsistöðvar eins og eru á Flúðum og í Holbæk. Þær heimsóknir gefa okkur síðan grunninn að því að svara spurningum sem nemendur munu sjálfir útbúa.

Nemendur ættu m.a. að finna svör við þessum spurningum:

  • Hvaða vatnslindum höfum við aðgang að í okkar samfélagi/víðar í heiminum (einfaldur samanburður)
  • Eru vatnslindir óþrjótandi?
  • Hvaða starfsemi fer fram á hreinsistöðvunum á Flúðum og í Holbæk?
  • Hver er munurinn á þessum tveimur vatnshreinsistöðvum?
  • Í hvað nýtist úrgangurinn úr hreinsistöðvunum?
  • Í hvað nýtist vatnið úr hreinsistöðvunum?
  • Hvað notar 1 manneskja mikið vatn?
  • Tengjast vatnshreinsistöðvar sjálfbærni?

Stefnt er að því að setja allar niðurstöður á heimasíðu verkefnisins en jafnframt birta þær að einhverju leyti inni á heimasíðu Seyruverkefnisins og samstarfsaðila þess.

Upplýsingar verða birtar á dönsku, ensku og íslensku. Jafnframt er stefnt að málþingi þar sem nemendur munu birta niðurstöður sínar og skýringu á verkefninu „Slam!“. Á málþinginu mun jafnframt verða fenginn aðili til að halda framsögu. Vonumst við til að  myndist áhugaverðar umræður á slíku málþingi.

Allt verkefnið hefur þann tilgang að vekja athygli nemenda og samfélagsins alls, á sjálfbærni samfélagsins og mikilvægi seyruhreinsunar í því sambandi.